NAUSTIÐ eftir Jon Fosse

Naustið er óhefðbundin saga sem gerist á þremur sumardögum og fjallar um náin tengsl þriggja persóna. Síendurtekin stef mynda sterk hugrenningatengsl en það sem gerist í raun og veru er samt sem áður ófyrirsjáanlegt enda þótt vinátta, ást, afbrýðisemi og dauði séu í forgrunni. Bókin kom fyrst út 1989 og markaði upphafið að velgengni höfundarins í heimalandinu, en haustið 2023 hlaut Jon Fosse Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. 

Hjalti Rögnvaldsson íslenskaði.

Áður hefur Dimma gefið út eftirtalin verk eftir Jon Fosse: Morgunn og kvöld, Þríleikurinn (Andvaka, Draumar Ólafs, Kvöldsyfja) og Þetta er Alla.

Það liðna er ekki draumur eftir Theodor Kallifatides

„Ég var átta ára gamall þegar afi tók í hönd mína og sleppti henni ekki fyrr en við fundum foreldra mína í Aþenu. Hver veit hvað annars hefði gerst. Nokkrum vikum áður hafði vopnaður hópur fasista smalað öllum íbúum þorpsins saman í ytri garðinn við kirkjuna. Þar stóðum við ungir og gamlir, dauðhræddir, meðan illræmdur foringi þeirra gekk hægt á milli okkar, horfði rannsakandi augum á hvern og einn, þar til hann að lokum valdi nokkra úr hópnum og tók með sér. Lík þeirra fundust aldrei. Þetta var árið 1946, einhvern tíma um vorið. Möndlutrén blómstruðu í löngum röðum og dalurinn skartaði sínu fegursta.“

Þannig hefst þessi uppvaxtarsaga grísk-sænska rithöfundarins sem hefur víða slegið í gegn með einstökum stíl og heillandi efnistökum. Á ís„lensku hafa fyrri bækur hans Nýtt land utan við gluggann minn og Mæður og synir hlotið einróma lof og sú síðarnefnda var tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna. 

Hallur Páll Jónsson íslenskaði.

Í landi sársaukans eftir Alphonse Daudet

Gyrðir Elíasson íslenskaði og ritaði inngang að þessari einstöku bók eftir Alphonse Daudet (1840-1897) sem var einn þekktasti rithöfundur Frakka á ofanverðri nítjándu öld, einkum fyrir smásögur, skáldsögur og leikrit. Nú á tímum eru mörg af verkum hans fallin í gleymsku, en þó ekki hið sígilda Bréf úr myllunni minni sem kom út á íslensku fyrir margt löngu og svo þessi sérstæða bók, Í landi sársaukans, sem birtist fyrst mörgum áratugum eftir lát höfundarins. Um er að ræða einskonar dagbókarskrif þar sem hann lýsir líðan sinni og í raun áralangri baráttu við banvænan sjúkdóm sem herjaði ekki síst á hina frjálslyndu listamenn fyrr á tímum. Hugsanlega voru þessi skrif frá hendi Daudets aðeins ætluð til úrvinnslu seinna meir, efni í skáldverk sem aldrei varð til, en þykja í seinni tíð merkileg heimild auk þess að vera stíluð af stakri snilld. 

„Sagnalist hefur frá öndverðu verið aðferð mannsins til að finna sér samastað í tilverunni, máta sig við örlögin og það sem verður á vegi hans á lífsleiðinni, en líka til að horfast í augu við hið ólinnandi mein, hið óþornaða tár, sem svo heitir í Heimsljósi, og það gerir  Alphonse Daudet meistaralega og án þess að líta undan í þessum áhrifaríku svipmyndum úr landi sársaukans.“

            —Halldór Guðmundsson, rithöfundur

„Makalaus vitnisburður um nístandi þjáningar í ríki sársaukans, en líka hæfileikann að snúa þjáningunum upp í orð, lýsingar, svipmyndir – list sem þrátt fyrir allt er líknandi.“

                      — Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur

„Í landi sársaukans“ sjáum við höfund á hátindi stílgáfu sinnar takast á hendur að lýsa „innanfrá“ vítiskvölum sýfilissjúkdómsins, svo minnir á Vítisför Dantes, nema hvað Dante var áhorfandi þar sem Alphonse Daudet upplifði hryllinginn af fullum þunga á eigin skinni.“

                     — Pétur Gunnarsson, rithöfundur

 

Svavar Knútur: Ahoy! Side B

Ný plata með Svavari Knúti er komin út. Um er ræða seinni hluti verkefnis sem hófst á Ahoy! Side A árið 2018, en plötunar tvær mynda eina heild og koma einnig út sem tvöföld LP vínylplata innan tíðar. Í rauninni er hér um að ræða lokakaflann í samstæðu verki sem byrjaði árið 2009 með plötunni Kvöldvöku og var síðan fram haldið með útgáfunum Ölduslóð (2012)og Brot (2015). Verkefnið bar lengi vel vinnuheitið „Söngvar um eymd og endurlausn“.

Heyrnarlaust lýðveldi – Ilya Kaminsky

Heyrnarlaust lýðveldi er nýstárleg og áhrifamikil ljóðabók sem fjallar um atburði í ónefndum bæ á stríðstímum. Þegar innrásarlið drepur heyrnarlausan dreng, verður byssuskotið það síðasta sem bæjarbúar heyra – allir missa heyrnina, en angist, reiði, skelfing og uppgjöf eru látin í ljós á táknmáli. Ljóðin eru tilfinningarík og dansa frjálslega á mörkum frásagnar og leikrits. Bókin fjallar á einstakan hátt um  ást og umhyggju andspænis hatrömmum átökum sem hafa hörmulegar afleiðingar. Viðfangsefnið er sígilt, staða óbreyttra borgara þegar lífi þeirra er skyndilega umturnað vegna stríðsátaka og engin leið virðist til bjargar. Frásagnaraðferð skáldsins er bæði sérstæð og hrífandi, enda hefur bókin hlotið einróma lof og verið tilnefnd til verðlauna.

Ilya Kaminsky fæddist í Úkraínu, sem þá var hluti af Sovétríkjunum, en fluttist til Bandaríkjanna með foreldrum sínum ungur að árum og skrifar á ensku. Verðlaunabók hans Dansað í Ódessa kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar árið 2018. 

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði

EDGAR ALLAN POE á íslensku

Loksins á íslensku! Myndarlegt úrval af kvæðum og sögum þessa brautryðjanda vestrænna nútímabókmennta, sannkölluð stórbók með þýðingum frá fyrri tíð, en líka glænýjum þýðingum eftir marga kunna þýðendur. Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur ritar ítarlegan inngang um höfundarverkið og þýðingarnar.

Hér koma saman á bók kvæði og sögur úr smiðju margra þýðenda frá fyrri tíð, auk þess sem bætt er við nýju efni til að gefa sem besta mynd af skáldskap meistarans. Meðal eldri þýðinga eru Svarti kötturinn og Hjartslátturinn í þýðingu Þórbergs Þórðarsonar, Hrafninn í rómuðum þýðingum Einars Benediktssonar og Þorsteins frá Hamri, Í röstinni í þýðingu Málfríðar Einarsdóttur og Draumaland í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Nýir þýðendur kvæða og sagna eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Ástráður Eysteinsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Jón Karl Helgason, Rúnar Helgi Vignisson og Sjón.

Verð (innb): 6.500,-

Verð (kilja): 4.700,-

Froskurinn með stÓra mUnninn

Þessi vinsæla, franska barnabók eftir Francine Vidal og Élodie Nouhen er komin út. Jóhanna Björk Guðjónsdóttir íslenskaði.

Fjörug og litrík saga, að hluta til í bundnu máli, um forvitna froskinn sem spyr hin og þessi dýr í kringum sig hver sé þeirra uppáhalds fæðutegund. Myndir og texti kallast skemmtilega á og gamalkunnur brandari gengur í endurnýjun lífdaga.

Verð: 3.000,-

ALLT ANNAR HANDLEGGUR eftir Áslaugu Jónsdóttur

Þegar teiknari og rithöfundur verður fyrir því óláni að handleggsbrotna eru góð ráð dýr. Í þessu tilfelli varð óhappið kveikjan að myndasyrpu með 34 persónum, en leikmunir voru sóttir í ýmsar ruslakistur og hirslur á heimilinu. Við þessa flóru bættust síðan limrur til að túlka mismunandi persónur. Óvenjuleg og bráðfyndin bók!

Verð: 4.000,-

STJÖRNUFALLSEYJUR eftir Jakub Stachowiak

Marta María Jónsdóttir myndlýsti

Draumkennd frásögn um söknuð og sorg dregur fram andstæður í hverfulum heimi. Líkamar skjálfa, borgir verða að lófum, hornlausir einhyrningar birtast og gamlar konur baða sig við ljósið í myrkrinu. Og svo eru líka leyndardómsfullar dyr, hvít hús sem fljóta á nætursvörtu vatni og hvíslandi trjágreinar.

Svarthvítar teikningar og vatnslitamyndir fléttast inn í verkið á einstakan hátt þar sem viðkvæmni línunnar blandast við ljúfsáran myndheiminn. Jakub Stachowiak hefur áður sent frá sér spennandi ljóðabækur, en hér kveður við nýjan tón í framsæknu prósaverki með myndríkum áherslum.

Verð: 4.000,-