Magnús Sigurðsson fæddist árið 1984 á Ísafirði. Hann vakti þegar athygli með sínu fyrsta verki, íslenskri þýðingu á stórvirki bandaríska ljóðskáldsins Ezra Pound, Söngvarnir frá Písa. Bókin kom út á vegum Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands.
Árið 2008 hlaut Magnús Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, fyrir ljóðabók sína Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu, þar sem þýðingar Magnúsar á ljóðum rómversku fornaldarskáldanna Katúllusar og Virgils kallast á við frumort ljóð. Sama ár kom út smásagnasafnið Hálmstráin, hvort tveggja hjá bókaforlaginu Uppheimum.
Í kjölfarið hafa fylgt ljóðabækur, þýðingar og greinasöfn um bókmenntir sem hafa áunnið Magnúsi sess í fremstu röð ljóðskálda sinnar kynslóðar.
Árið 2013 hlaut Magnús Ljóðstaf Jóns úr Vör, fyrir ljóð sitt „Tunglsljós“, sem birtist síðar í þriðju ljóðabók hans, Tími kaldra mána.