Tvöföld ljóðabók Gyrðis á dönsku

Tvær ljóðabækur eftir Gyrði Elíasson eru komnar út á dönsku í þýðingu Eriks Skyum-Nielsen. Útgefandi er forlagið Jensen & Dalgaard sem mun gefa út fleiri verk Gyrðis á næstu misserum.

Hér eru það bækurnar Nokkur almenn orð um kulnun sólar (2009) og Hér vex enginn sítrónuviður (2012) sem rata til danskra lesenda.

Í Politiken birtist dómur á útgáfudegi bókarinnar og þar segir Thomas Bredsdorff m.a.: „Maður verður bjartsýnn af lestri ljóða Gyrði Elíassonar. Merkilegt í rauninni, því sjaldan hefur maður séð ljóðasafn jafn fullt af svörtum lit. Hundurinn er svartur, báturinn á sjónum er svartur, og malbikið er svo svart að fólk verður að sofa með ljósið kveikt. Á eftirlætisstað ljóðskáldsins, kirkjugarðinum, krýpur maður með svarta yfirbreiðslu.“

Draumstol á norsku

Ljóðabókin Draumstol eftir Gyrði Elíasson kom nýlega út á norsku í þýðingu Oskars Vistdal og er það þriðja ljóðabók skáldsins sem kemur út hjá Nordsjø-útgáfunni, en jafnframt síðasta útgáfa þess ágæta forlagssem nú hættir starfsemi. Bókin hefur þegar fengið góðar móttökur, því Gyrðir var heiðursgestur á Norrænu ljóðahátíðinni á Hamri 2023 sem kennd er við skáldið Rolf Jacobsen.

Um bókina segir gagnrýnandinn Sindre Ekrheim, sem skifar í Krabben, m.a. „Ljóð Gyrðis Elíassonar ferðast milli svefns og vöku, milli prósa og ljóðrænu, milli kjarnyrtrar kímni og hreinræktaðs myndmáls. Þau eru stutt, hæðin, beinskeytt – og eru í stórum dráttum alltaf ósvikinn og markviss skáldskapur.“

GRAFREITURINN Í BARNES

Þessi stutta en seiðmagnaða skáldsaga gerist á þremur ólíkum sviðum og kemur lesandanum oftar en ekki í opna skjöldu. Þrátt fyrir lágstemmdan stíl á yfirborðinu er ólgandi og stundum ógnvekjandi undiralda í verkinu. Atburðir, tími og sjónarhorn fléttast listilega saman, rétt einsog í óperu eftir Monteverdi, og skapa einstæða tilfinningu fyrir sögupersónum og sambandinu þeirra á milli. Í aðalhlutverki er þýðandi sem flyst frá London til Parísar og síðan til Wales, þar sem hugsanlega hitnar í kolunum.

Gyrðir Elíasson íslenskaði

Verð: 3.000,-

MÆÐUR OG SYNIR

Theodor Kallifatides heldur hér sínu striki og er sjálfur í miðju frásagnarinnar. Að þessu sinni fer hann frá Svíþjóð til gamla heimalandsins, Grikklands, og heimsækir móður sína á tíræðisaldri í Aþenu. Um leið rifjar hann upp endurminningar föður síns og tengir uppruna- og ættarsögu við samtal þeirra mæðgina um lífið og tilveruna. Fortíð og nútíð kallast á og gömul leyndarmál eru afhjúpuð. Minningar og móðurkærleikur eru leiðandi stef og höfundurinn lýsir hlutverki móðurinnar í lífi sonarins á hjartnæman og hrífandi hátt.

Mæður og synir er áhugavert og sannfærandi framhald af bókinni Nýtt land utan við gluggann minn sem hlaut afbragðs góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda.

Hallur Páll Jónsson íslenskaði

Verð: 3.200,-

Stjarnan í austri – bók og hljómplata

Þetta skemmtilega jólaverkefni er ættað frá Noregi þar sem upphafsmaður þess, söngvaskáldið Geirr Lystrup, gaf út bók og geisladisk fyrir tveimur áratugum síðan og nú hefur efnið verið fært í íslenskan búning. Sagan um Mæju mey og barnið, byggð á gömlum helgisögnum og ævintýrum, gerist í vetrarríki á norðurslóðum. Inn í söguna fléttast sextán söngljóð sem eru samin við rússnesk þjóðlög.

Bókinni fylgir geisladiskur með tónlistinni.

Flytjendur: Aðalsteinn Ásberg, Þorgerður Ása og Sönghópurinn við Tjörnina undir stjórn Gunnars Gunnarssonar, auk hljómsveitar. Einnig hægt að hlusta á tónlistina hér: https://open.spotify.com/album/3ZZvxN0tWpDjLejxVOQTAe…

Bókin kemur einnig út sem tónskreytt hljóðbók: https://www.storytel.com/is/is/books/stjarnan-%C3%AD-austri-2079256

Verð: 4.200,-

ENGINN og HEIMURINN ER HORNALAUS

Tvær frábærar bækur eftir SVEIN NYHUS, einn þekktasta barnabókahöfund Norðmanna

ENGINN er einföld saga en um leið heimspekileg og hreyfir við lesendum, hvort sem þeir eru börn eða fullorðnir. Sagan sem sögð er í máli og myndum kemur á óvart, auk þess að snúast um skemmtilegan orðleik þar sem Enginn er í aðalhlutverki. Sannkallað meistaraverk.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði

Verð: 3.200,-

HEIMURINN ER HORNALAUS er ljóðræn og hrífandi bók fyrir unga lesendur, en líka þá sem eldri eru. Viktor situr ofan í pappakassa og hugsar, en um leið fær lesandinn að taka þátt í  þeirri veröld sem hann skynjar og skilur á sinn hátt, enda bráðnauðsynlegt að útskýra hina ýmsu þætti tilverunnar. Bók sem hlotið hefur margskonar verðlaun og viðurkenningar.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði

Verð: 3.200,-

Húslestur – ritgerðir – eftir Magnús Sigurðsson

Í fábreytni bændasamfélagsins gat húslesturinn rofið einangrun afdalsins og opnað glugga inn í framandi heima. Með því að leita fanga víða, og gjarnan úr alfaraleið, færir Magnús Sigurðsson þann gamla, íslenska sið til nútímahorfs. Í bókmenntatextum sem leika á mörkum sannleika og skáldskapar, arfs og umbyltingar, alvöruþunga og „absúrd kómíkur“, er látið reyna á tjáningargetu ritgerðaformsins sem skáldlistar. Viðfangsefni þessara veraldlegu húslestra eru líka fjölbreytt. Meðal annars er sagt frá samstarfi bandarísku skáldkonunnar Marianne Moore við bílaframleiðandann Ford, afdrifaríkri bommertu 19. aldar rúnafræðingsins Finns Magnússonar, upphafi nýrrar absúrdistahreyfingar vestur á Bolungarvík, íslenskri tungu sem harmabót Fjölnismannsins Konráðs Gíslasonar og fjallað um „slaufanir“ fyrr á öldum.

Húslestur ber keim af fyrri bókum höfundar, Tregahandbókinni og Íslenskri lestrarbók, framsæknum verkum þar sem nýstárlegri tjáningu er fundinn búningur í bókmenntaformum fyrri tíma.

Verð: 4.700,-

Krossljóð eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

Sigurbjörg Þrastardóttir fer hér nýstárlega leið í skáldskap sínum og slæst í för með 40 erlendum skáldum af ólíkum uppruna. Ásamt því að þýða ljóð eftir hvert og eitt þeirra dregur hún fram óbirt ljóð úr eigin fórum sem kallast á við raddir gestanna. Úr verður einstakur krosssaumur fjölbreyttra samtímaljóða þar sem skarast vestrænt hversdagslíf, ástir og ofbeldi, húðflúr, húsdýr og mannkynssagan eins og hún blasir við höfundunum.  

Bókin á rætur að rekja til þeirra tengsla sem myndast skálda á milli þar sem ljóðvegir liggja vítt og breitt um heiminn.  

Verð: 4.200,-