Sumarnótt – Guðmundur Andri Thorsson

Smáskífan Sumarnótt – nýtt lag eftir Guðmund Andra Thorsson í flutningi höfundar er komið út á streymisveitum. Hér er um að ræða forsmekkinn að nýrri breiðskífu með lögum og ljóðum Guðmundar Andra sem er þó betur þekktur fyrir bækur af ýmsu tagi.

Flytjendur: Guðmundur Andri, söngur og gítar, Ragnheiður Ólafsdóttir, söngur, Eyjólfur Guðmundsson, rafgítar, Guðmundur Ingólfsson, bassi og stálgítar, Þorkell Heiðarsson, píanó og harmonikka, Aðalgeir Arason, mandólín, Ásgeir Óskarsson, trommur og ásláttur. Upptaka og prógrammering: Guðmundur Ingólfsson.

Fyrir tveimur árum kom út hjá Dimmu fyrsta breiðskífa Guðmundar Andra, en hún ber heitið Ótrygg er ögurstundin og hafði að geyma 14 lög úr smiðju söngvaskáldsins. Og nú er skammt í annan skammt af ekki ólíku sauðahúsi.

https://open.spotify.com/album/6VnTVxtbyXmdH9gPZdA1MC?si=BlaJu6dBQxGQBZMurWkpeQ

LIFI ÚKRAÍNA / SLAVA UKRAINI

Aðalsteinn Ásberg í samvinnu við norska söngvaskáldið Geirr Lystrup

Smáskífan Lifi Úkraína / Slava Ukraini, sem er nýstárlegt samvinnuverkefni á norræna vísu, er komin út á streymisveitum. Söngvaskáldið Geirr Lystrup samdi ljóðið sem nú birtist í íslenskri þýðingu og flutningi Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar.

Tónlistin og undirliggjandi hljóðheimur verksins er óvenjulegur, en þar er notaður þjóðsöngur Úkraínu eftir tónskáldið Mikhail Verbytskyj (saminn 1864), en einnig koma við sögu brot úr ræðum forseta Úkraínu og forseta Rússlands. Að auki leika Ørnulf Snortheim á gítar og píanó og Børre Flyen á trommur.

https://open.spotify.com/album/0tgCujxMJhHv7zAIYY0Acj?si=czZ-vnLrRw64_N32Wb0JvQ

Myndband með laginu er líka komið út: https://www.youtube.com/watch?v=EXxmANlfouU

Dimma 30 ára

Um þessar mundir eru liðin 30 ár frá því að Dimma hóf útgáfustarfsemi og af því tilefni bjóðum við 30% afslátt af öllum bókum og tónlist í forlagsbúðinni á Óðinsgötu 7.

Í maí 1992 komu út tvær fyrstu bækur forlagsins, ljóðabækurnar Draumkvæði eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Tré hreyfa sig hægt eftir norska skáldið Paal-Helge Haugen. Skömmu síðar leit fyrsta hljómplata útgáfunnar dagsins ljós.

Útgáfan var með smáu sniði í upphafi, en vatt síðan upp á sig og nú eru titlarnir orðnir talsvert á þriðja hundrað, þar á meðal 150 bækur af ýmsu tagi og um 100 hljómplötur.

Frá upphafi hefur Dimma lagt áherslu á ljóð, smásögur, skáldsögur og barnabækur eftir innlenda og erlenda höfunda, en að auki gefið út listaverkabækur, fræðirit, hljóðbækur og nótnabækur. Í tónlistinni ber helst að nefna vísna- og þjóðlagatónlist, hina sívinsælu barnatónlist og fjölbreytta flóru jazztónlistar.  

Umbra – BJARGRÚNIR

BJARGRÚNIR er fjórða plata hljómsveitarinnar Umbru. Platan hefur að geyma þjóðlagatónlist þar sem dregin er fram staða og raunir kvenna fyrr aftur í aldir, en lítið er til af heimildum þar að lútandi. Ólík yrkisefni draga fram raunir sem endurspegla íslenska veðráttu, strjálbýli, hrikaleg náttúruöfl eða áfallasögu sem erfist milli kynslóða.

Umbru skipa: Alexandra Kjeld – kontrabassi, langspil, söngur, Arngerður María Árnadóttir – keltnesk harpa, indverskt harmóníum og söngur, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir – fiðla, víóla, langspil og Lilja Dögg Gunnarsdóttir – söngur og írsk flauta. Gestaleikarar: Eggert Pálsson – slagverk og Matthías M.D. Hemstock – slagverk.

Verð: 3.200,-

Theodor Kallifatides – Nýtt land utan við gluggann minn

Theodor Kallifatides yfirgaf Grikkland árið 1964 og fluttist til Svíþjóðar. Hann var 26 ára gamall og heillaðist af nýju landi og tungumáli sem hann náði fljótt undraverðum tökum á. Aðeins fáum árum síðar gaf hann út sína fyrstu bók og er nú í hópi þekktustu rithöfunda Svía.

Í þessari einstöku bók fjallar hann um uppruna sinn og stöðu eftir áratuga búsetu í nýja landinu. Á hrífandi og persónulegan hátt fléttar hann saman hugleiðingum um tungumál og tilvist, minningar, ást og eigin ímynd, ásamt þeim möguleikum sem framandi menningarheimur felur í sér.

Hallur Páll Jónsson íslenskaði

Verð: 3.200,-

Farþeginn eftir Ulrich Alexander Boschwitz

Þýski rithöfundurinn Ulrich Alexander Boschwitz (1915–1942) sendi aðeins frá sér tvær skáldsögur á stuttri ævi. Sú fyrri kom út á sænsku árið 1937 undir dulnefni, en Farþeginn birtist á ensku árið 1939, fyrst í Englandi og síðan Bandaríkjunum. Fáeinum árum síðar kom út frönsk þýðing bókarinnar.

Þótt Farþeginn væri skrifaður á þýsku fékkst bókin á sínum tíma ekki útgefin í Þýskalandi. En eftir að upprunalegt handrit kom í leitirnar árið 2018 var ekki eftir neinu að bíða. Útgefandinn Peter Graf fór yfir handritið og ritaði upplýsandi eftirmála um verkið. Bókin var lofuð hástöfum í þýskum fjölmiðlum og borin saman við framúrskarandi skáldverk um tímabil nasismans, enda sennilega eitt allra fyrsta verkið til að lýsa örlögum þýskra gyðinga.

Elísa Björg Þorsteinsdóttir íslenskaði

Verð: 3.500,-

SAGAN UM POMPERÍPOSSU MEÐ LANGA NEFIÐ

Axel Wallengren – Guðrún Hannesdóttir

Einu sinni fyrir langa löngu var afskaplega gömul galdrakerling sem hét Pomperípossa. Hún var hræðilega ljót og vond í þokkabót. En í hvert skipti sem Pomperípossa galdraði þá lengdist á henni nefið. Það var hennar refsing.

Höfundurinn Axel Wallengren (1865-1896) birti söguna árið 1895, en hún hefur síðan komið út í margskonar myndskreyttum útgáfum og notið mikilla vinsælda í meira en heila öld.

Guðrún Hannesdóttir íslenskaði og myndskreytti þetta sígilda, sænska ævintýri.

Verð: 3.200,-

Asmódeus litli

Ulf Stark – Anna Höglund

Guðrún Hannesdóttir íslenskaði

Asmódeus litli er ekki eins og aðrir í Undirheimum. Hann vill aldrei slást eða vera með andskotans læti og langar ekki til að gera neitt af sér. Hvað eiga foreldrar hans þá til bragðs að taka? Eina ráðið er víst að senda hann upp á yfirborð jarðar þar sem honum er ætlað að sýna fram á að hann sé sannur sonur föður síns. Mögnuð saga eftir valinkunna sænska barnabókahöfunda í úrvalsþýðingu Guðrúnar Hannesdóttur.

Verð: 3.200,-

SVEFNGARÐURINN eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

Sögurnar í Svefngarðinum eru ólíkar en tengjast þó ýmsum þráðum. Saman mynda þær ferðalag gegnum tímann – allt frá upphafi síðustu aldar til fjarlægrar framtíðar. Afskræmdir minningarheimar og svikul undirmeðvitundin gera skilin milli draums og veru æði óskýr. Fyrsta bók þessa unga og áhugaverða höfundar, 500 dagar af regni, kom út í fyrra og vakti verðskuldaða athygli. Hér eru efnistökin ólík en ekki síður heillandi. 

Verð: 4.900,-

VENDIPUNKTAR eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson

Hvar í lífinu leynast vendipunktarnir sem geta sett okkur út af sporinu og markað nýtt upphaf eða óvænt endalok? Í sjö áhrifaríkum smásögum opnar höfundur lesendum dyr að tímabundnum viðkomustöðum margra ólíkra persóna. Reykjavík nútímans, gamalt hótel í New York, afskekkt sjávarpláss á Íslandi, eldhús fáránleikans á grískri eyju og bókastofa eftirlaunamanns eru þar á meðal. Óreiðukenndir draumar, ástarsambönd og vináttutengsl ráða för og skapa um leið ýmiskonar vandamál.  

Verð: 4.900,-