Steinunn Ásmundsdóttir. Í senn dropi og haf. Reykjavík: Dimma, 2019.
Fyrsta ljóðabók Steinunnar Ásmundsdóttur kom út 1989 og fljótlega fylgdu tvær ljóðabækur í kjölfarið. Liðu svo tveir áratugir uns hún sendi frá sér nýtt efni. Hér birtist sjötta ljóðabók Steinunnar og hefur að geyma 40 ljóð um konur og náttúru á umbrotatímum.
Steinunn flutti til Egilsstaða árið 1996 og bjó þar næstu rúmlega tuttugu árin, stofnaði fjölskyldu og starfaði sem blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins á Austurlandi í hartnær áratug og sem ritstjóri héraðsfréttablaðsins Austurgluggans um skeið. Í viðtali um Í senn dropi og haf við Jórunni Sigurðardóttur sagði Steinunn meðal annars: „Þessi bók er kveðja mín til áranna fyrir austan. Hún fjallar um aðdragandann að því að skilja og flytja í burt. Ég er að skrifa ýmsar minningar og myndir, sem skiptu mig máli fyrir austan, oft tengt náttúrunni. (…) Það leita á mig minningar en líka einhvers konar veraldarhugsun. Ég held að ég sé að tengja brot úr mínu lífi við eitthvað stærra samhengi.“