Andrés Þór Gunnlaugsson,f. 1974 í Reykjavík, hóf tónlistarnám um 12 ára aldur við tónlistarskóla Hafnarfjarðar á klassískan gítar og um 15 ára aldur einnig á rafgítar. Leiðin lá síðan í tónlistarskóla FÍH og lauk hann burtfararprófi þaðan á jazzbraut vorið 1999. Síðan hélt hann til Hollands í framhaldsnám við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag þar sem hann lærði hjá kennurunum Eef Albers, Peter Nieuwerf, Wim Bronnenberg, Hein van der Geyn og John Ruocco. Einnig sótti Andrés Workshop og Masterclassa með Avishai Cohen, Kurt Rosenwinkel, John Abercrombie, Kenny Wheeler, Chris Cheek auk þess að leika í Conservatory stórsveitinni á stórónleikum í ráðhúsi Den Haag ásamt bandaríska saxafónleikaranum Michael Brecker. Andrés lauk Bachelorsgráðu í Jazzgítarleik og kennslufræðum vorið 2004 og Mastersgráðu vorið 2006. Á námsárunum í Hollandi lék Andrés á tónleikum víðsvegar í Hollandi og einnig í Belgíu, Lúxemburg og Þýskalandi með ýmsum sveitum en einna mest með Jazztríóinu Wijnen, Winter & Thor sem lék m.a. á Jazzhátíð Reykjavíkur 2003. Andrés hóf að starfa sem atvinnumaður í tónlist árið 1994 með hljómsveitinni Sixties og lék inná 4 hljómdiska með þeirri sveit. Á undanförnum árum hefur Andrés verið afar virkur í Íslensku jazzlífi. Fyrsti geisldiskurinn þar sem tónsmíðar Andrésar og gítarleikur höfðu verulegt vægi var Wijnen, Winter & Thor: It was a very good year sem kom út 2004, en lag Andrésar „Þórdísardans“ var tilnefnt til íslensku tónlistarverðlaunanna það ár. Sólóplata með Kvartett Andrésar „Nýr dagur“ kom út 2006 og platan BonSom með samnefndri hljómsveit, 2007 og sólóplöturnar Blik 2009 og Mónókróm 2012.
Andrés leikur einnig með hljómsveitunum „The Viking Giant Show“ og í kvartett danska bassaleikarans Andreas Dreier sem kallast „The Stew“ og ASA tríóinu, sem allar hafa sent frá sér geisladiska.