Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fæddist 22. júlí 1955 á Húsavík, S.-Þing, en ólst upp á Öndólfsstöðum í Reykjadal, S-Þing. Hann lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1974, stúdentsprófi frá sama skóla 1976 og nam íslensku við Háskóla Íslands 1976-1977. Stundaði einnig tónlistar- og leiklistarnám og sótti námskeið í kvikmyndahandritagerð og leikritun.
Tímabundin störf sem blaðamaður, útvarpsþulur og textasmiður á auglýsingastofu. Einn af frumkvöðlum tónlistarfélagsins Vísnavina. Hefur helgað sig ritlist og tónlist jöfnum höndum frá 1980. Framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda 1988-1998, forseti Nordisk Populærautor Union 1993-1995, formaður Rithöfundasambands Íslands 1998-2006 og í stjórn STEFs 2006-2012.
Stofnaði útgáfufyrirtækið DIMMU ásamt Önnu Pálínu Árnadóttur árið 1992 og hefur rekið það allar götur síðan.