Jón Karl Helgason er menntaður í bókmenntafræði og íslensku frá Háskóla Íslands og doktor í samanburðarbók- menntum frá University of Massachusetts. Hann hefur verið kennari á Hugvísindasviði Háskóla Íslands frá árinu 2006 og kennir einkum í námsgreinunum Íslenska og Íslenska sem annað mál. Helstu viðfangsefni í rannsóknum hans á liðnum árum hafa verið endurritanir íslenskra fornrita, menningarlegir þjóðardýrlingar Evrópu, íslenskar sögusagnir og einsögur byggðar á persónulegum heimildum. Þá hefur hann fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, fræðirita og vefja á Netinu.
Jón Karl hefur gefið út eina bók hjá Dimmu, fræðiritið Sögusagnir sem fjallar um skáldverk sem varpa áhugaverðu ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk sjálfsögur á íslensku en Jón Karl kynnir fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi. Þetta eru þeir Sigurður Nordal með leikritinu Uppstigningu (1945), Elías Mar með skáldsögunni Eftir örstuttan leik (1946) og Gunnar Gunnarsson með skáldsögunni Vikivaka (1948). Síðasti kafli Sögusagna er helgaður skáldsögunni Turnleikhúsinu (1979) eftir Thor Vilhjálmsson og tengslum hennar við póstmóderníska fagurfræði.