Morgun og kvöld

Morgunn og kvöld er fyrsta skáldsaga norska höfundarins Jons Fosse sem kemur út á íslensku. Þýðandi er Hjalti Rögnvaldsson. Hér er um að ræða einstaka og áhrifamikla frásögn af fæðingu barns og dauða gamals manns. Í áhugaverðu yfirliti um höfundareinkenni Fosse segir Ragnheiður Ásgeirsdóttir meðal annars:

„Jon Fosse segir að formið sé mikilvægara en sagan. Hann leitar að nýju tungumáli til að tjá það sem er almennast og algildast í heiminum, spurninguna um lífið og dauðann. Hann skrifar um hversu erfitt er að vera saman en líka í sundur, um þunga fortíðarinnar, ástina, afbrýðisemina, Guð og framhjáhöld, óttann og óöryggið, einsemdina og einangrunina, en líka um tengsl foreldra og barna og það sambandsleysi sem þar er oft að finna.“