Stjarnan í austri – bók og hljómplata

Þetta skemmtilega jólaverkefni er ættað frá Noregi þar sem upphafsmaður þess, söngvaskáldið Geirr Lystrup, gaf út bók og geisladisk fyrir tveimur áratugum síðan og nú hefur efnið verið fært í íslenskan búning. Sagan um Mæju mey og barnið, byggð á gömlum helgisögnum og ævintýrum, gerist í vetrarríki á norðurslóðum. Inn í söguna fléttast sextán söngljóð sem eru samin við rússnesk þjóðlög.

Bókinni fylgir geisladiskur með tónlistinni.

Flytjendur: Aðalsteinn Ásberg, Þorgerður Ása og Sönghópurinn við Tjörnina undir stjórn Gunnars Gunnarssonar, auk hljómsveitar. Einnig hægt að hlusta á tónlistina hér: https://open.spotify.com/album/3ZZvxN0tWpDjLejxVOQTAe…

Bókin kemur einnig út sem tónskreytt hljóðbók: https://www.storytel.com/is/is/books/stjarnan-%C3%AD-austri-2079256

Verð: 4.200,-

ENGINN og HEIMURINN ER HORNALAUS

Tvær frábærar bækur eftir SVEIN NYHUS, einn þekktasta barnabókahöfund Norðmanna

ENGINN er einföld saga en um leið heimspekileg og hreyfir við lesendum, hvort sem þeir eru börn eða fullorðnir. Sagan sem sögð er í máli og myndum kemur á óvart, auk þess að snúast um skemmtilegan orðleik þar sem Enginn er í aðalhlutverki. Sannkallað meistaraverk.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði

Verð: 3.200,-

HEIMURINN ER HORNALAUS er ljóðræn og hrífandi bók fyrir unga lesendur, en líka þá sem eldri eru. Viktor situr ofan í pappakassa og hugsar, en um leið fær lesandinn að taka þátt í  þeirri veröld sem hann skynjar og skilur á sinn hátt, enda bráðnauðsynlegt að útskýra hina ýmsu þætti tilverunnar. Bók sem hlotið hefur margskonar verðlaun og viðurkenningar.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði

Verð: 3.200,-

Húslestur – ritgerðir – eftir Magnús Sigurðsson

Í fábreytni bændasamfélagsins gat húslesturinn rofið einangrun afdalsins og opnað glugga inn í framandi heima. Með því að leita fanga víða, og gjarnan úr alfaraleið, færir Magnús Sigurðsson þann gamla, íslenska sið til nútímahorfs. Í bókmenntatextum sem leika á mörkum sannleika og skáldskapar, arfs og umbyltingar, alvöruþunga og „absúrd kómíkur“, er látið reyna á tjáningargetu ritgerðaformsins sem skáldlistar. Viðfangsefni þessara veraldlegu húslestra eru líka fjölbreytt. Meðal annars er sagt frá samstarfi bandarísku skáldkonunnar Marianne Moore við bílaframleiðandann Ford, afdrifaríkri bommertu 19. aldar rúnafræðingsins Finns Magnússonar, upphafi nýrrar absúrdistahreyfingar vestur á Bolungarvík, íslenskri tungu sem harmabót Fjölnismannsins Konráðs Gíslasonar og fjallað um „slaufanir“ fyrr á öldum.

Húslestur ber keim af fyrri bókum höfundar, Tregahandbókinni og Íslenskri lestrarbók, framsæknum verkum þar sem nýstárlegri tjáningu er fundinn búningur í bókmenntaformum fyrri tíma.

Verð: 4.700,-

Krossljóð eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

Sigurbjörg Þrastardóttir fer hér nýstárlega leið í skáldskap sínum og slæst í för með 40 erlendum skáldum af ólíkum uppruna. Ásamt því að þýða ljóð eftir hvert og eitt þeirra dregur hún fram óbirt ljóð úr eigin fórum sem kallast á við raddir gestanna. Úr verður einstakur krosssaumur fjölbreyttra samtímaljóða þar sem skarast vestrænt hversdagslíf, ástir og ofbeldi, húðflúr, húsdýr og mannkynssagan eins og hún blasir við höfundunum.  

Bókin á rætur að rekja til þeirra tengsla sem myndast skálda á milli þar sem ljóðvegir liggja vítt og breitt um heiminn.  

Verð: 4.200,-

Dregið í lukkuleik bókakaupenda

Þeir sem pöntuðu nýju smáprósana eftir Gyrði Elíasson, Þöglu myndirnar og Pensilskrift, voru skráðir í lukkupott og einn heppinn kaupandi hlaut myndverk eftir höfundinn. Sá heppni í þessum leik var Birgir Jóhannsson, en Gyrðir afhenti honum myndina og útgefandinn tók þess skyndimynd af þeim á stéttinni fyrir utan höfuðstöðvar Dimmu.

Bækurnar eru nú komnar til flestra áskrifenda og styttist í að þær verði til sölu í bókabúðum.

Tilboð í takmörkuðu upplagi

Í lok október kemur út nýtt tveggja binda verk eftir Gyrði Elíasson, ÞÖGLU MYNDIRNAR / PENSILSKRIFT – smáprósar I og II. Við bjóðum takmarkað upplag á kostakjörum og frítt eintak af LUNGNAFISKUNUM með í pakkanum. Forkaupum fylgja einnig lukkunúmer og einn heppinn kaupandi hreppir myndlistarverk eftir Gyrði, en nokkrar af smámyndum hans eru nú til sýnis í forlagsbúð DIMMU á Óðinsgötu 7.

TILBOÐSVERÐ 6.900,- gildir til 15. október!

Pantanir sendist á dimma@dimma.is