Dimma

stofnuð 1992


Færðu inn athugasemd

Draumar Ólafs eftir Jon Fosse

DRAUMAR ÓLAFS eftir Jon Fosse er kominn út. Hjalti Rögnvaldsson íslenskaði.Jon Fosse_Draumar Ólafs

Draumar Ólafs er annar hluti þríleiksins sem Jon Fosse hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir sl. haust. Saman mynda Andavaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja magnaða heild sem hverfist um lífskjör fátæks fólks í Noregi á árum áður.

Fyrsti hluti þríleiksins, Andvaka, kom út í byrjun júní og sá síðasti, Kvöldsyfja, er væntanlegur í ágúst. 

Draumar Ólafs er 85 bls.í sveigjanlegri kápu. Högni Sigurþórsson hannaði bókarkápu.


Færðu inn athugasemd

Ný útgáfa af Glæðum

Hin vinsæla hljómplata Kristjönu Stefáns og Svavars Knúts, Glæður,  frá árinu 2011 hefur verið DIM52_Glaedur_COV_300endurútgefin. Á plötunni er að finna fjórtán hugljúf lög, þar af þrjú frumsamin, en platan varð til upp úr samstarfi þessa músíkalska pars, sem undanfarin ár hefur haldið fjölda dúettatónleika um land allt.

Af helstu söngperlum sem skreyta Glæður má nefna hin sígildu íslensku sönglög Við gengum tvö, Í dag skein sól og Enn syngur vornóttin, en til alþjóðlegra stórsmella má nefna Abbalögin One of us og When all is said and done, auk hins sígilda lags hljómsveitarinnar Styx, Boat on the river.


Færðu inn athugasemd

Milli trjánna í nýrri útgáfu

Verðlaunabók Gyrðis Elíassonar, Milli trjánna, er komin út í nýrri og vandaðri kiljuútgáfu. Milli trjánna_kilja2016Bókin var fyrst gefin út árið 2009 hjá Uppheimum, en fyrir verkið hlaut Gyrðir síðan Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011.

Milli trjánna er safn 47 fjölbreyttra og meitlaðra smásagna sem sverja sig í ætt við önnur verk Gyrðis. Bókin hefur verið þýdd og gefin út víða og borið hróður höfundarins milli landa. Í bókinni bregður fyrir ýmis konar óhugnaði og furðum, einsemd, draumum, ferðalögum, bernskuminningum og framtíðarsýnum, auk þeirrar ísmeygilegu fyndni sem margir kannast við úr verkum hans. Sögurnar eru þess eðlis að þær má lesa oftar en einu sinni og eins víst að lesandinn uppgötvi eitthvað nýtt í hvert skipti. Ómissandi verk í heimilisbókasafnið að margra áliti.

Milli trjánna er 259 bls. Högni Sigurþórsson hannaði bókarkápu, en hana prýðir mynd eftir höfundinn.

 


Færðu inn athugasemd

Hjörtur Pálsson: LJÓÐASAFN

Þann 5. júní fagnaði Hjörtur Pálsson, skáld, þýðandi, útvarpsmaður og prestur 75 ára afmæli Hjörtur Pálsson_LJÓÐASAFNsínu. Þann dag gaf Dimma út heildarsafn ljóða hans. Fyrsta ljóðbók Hjartar, Dynfaravísur, kom út árið 1972, en safnið hefur að geyma allar útgefnar ljóðabækur skáldsins, 5 að tölu, auk verðlaunaljóðsins Nótt frá Svignaskarði sem kom út sérprentað, og ennfremur nýja ljóðabók, sem nefnist Ísleysur, með ljóðum frá síðustu tveimur áratugum.

LJÓÐASAFNIÐ  er 362 bls. Högni Sigurþórsson hannaði bókarkápu.


Færðu inn athugasemd

Fyrsti hluti Þríleiksins eftir Jon Fosse

Andvaka er fyrsti hluti þríleiksins sem Jon Fosse hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs Jon Fosse_Andvakafyrir sl. haust. Þríleikurinn fjallar um ævi og örlög alþýðufólks í Noregi fyrr á tímum.  Hjalti Rögnvaldsson íslenskaði.

Jon Fosse (f. 1959) er einn kunnasti samtímahöfundur Norðmanna. Verk hans hafa verið þýdd og gefin út á meira en 40 tungumálum, leikverk hans sviðsett meira en þúsund sinnum og Fosse unnið til fjölda verðlauna bæði í heimalandinu og erlendis. Allt frá fyrstu bók sinni, skáldsögunni Rautt, svart árið 1983, hefur hann helgað sig ritstörfum og sent frá sér skáldsögur, ljóðabækur, barnabækur og ritgerðasöfn ─ samtals nær 40 bækur.

Á síðasta ári kom sagan Morgunn og kvöld út hjá Dimmu, í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar, en einnig hafa nokkur verk eftir Fosse verið sett á svið hérlendis, þ.á.m. Sumardagur var sýndur í Þjóðleikhúsinu 2006, unglingaleikritið Purpuri  hjá leikhópnum Jelenu í Loftkastalanum sama ár.


Færðu inn athugasemd

Ljóð Ewu Lipsku komin út

Neyðarútgangur er úrval ljóða eftir pólsku skáldkonuna Ewu Lipsku. Í bókinni er valið efni úr Ewa Lipska_Neyðarútganguröllum útgefnum ljóðabókum skáldsins sem er meðal þekktustu samtímaskálda Pólverja. Olga Holownia valdi efnið og ritstýrði verkinu, en þýðendur eru: Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson, Olga Holownia og Óskar Árni Óskarsson.

Ewa Lipska fæddist árið 1945 í Kraká í Póllandi og sendi frá sér fyrstu ljóðbók sína árið 1967. Sú bók vakti mikla athygli og síðan hafa komið nær tveir tugir ljóðabóka út eftir hana. Þótt vissulega megi telja að Ewa Lipska tilheyri nýbylgjuskáldunum í Póllandi sem komu fram á sjónarsviðið undir lok sjöunda áratugar liðinnar aldar hefur hún sjálf alla tíð lagt á það áherslu að hún sé hvorki bundin straumum né stefnum. Haustið 2013 kom Ewa Lipska til Íslands á vegum Bókmenntahátíðar í Reykjavík og ljóðaverkefnisins ORT.


Færðu inn athugasemd

Koparakur á dönsku

Koparakur_danska útgáfan

  • KOPARAKUR Gyrðis Elíassonar kom úr í Danmörku fyrir skemmstu í þýðingu Eriks Skyum-Nielsen. Bókin hefur fengið lofsamlega dóma þar í landi og er gjarna vísað til verðlaunabókarinnar Milli trjánna, sem hlaut einróma lof danskra gagnrýnenda á sínum tíma. Gagnrýnendur fara fögrum orðum um hinn knappa stíl Gyrðis og tala auk þess um tengsl hans við heimsbókmenntinar. Forlagið Vandkunsten sem gefur bókina út á dönsku.