Þrjár af sjö tilnefningum til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár!

Það er einstaklega ánægjulegt að 3 tilnefningar af 7 til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár eru vegna bóka sem DIMMA gefur út! Okkar fólk sem tilnefnt er:

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir 43 smámunir eftir Katrinu Ottarsdóttir

Guðrún Hannesdóttir fyrir skáldsöguna Dyrnar eftir Mögdu Szabó

Magnús Sigurðsson fyrir ljóðabókina Berhöfða líf – úrval ljóða eftir Emily Dickinson

Hér má sjá frétt um tilnefningarnar!

BLÁSÝRA með Sálgæslunni

Blásýra, nýr tíu laga diskur Sálgæslunnar, kemur út í dag, föstudaginn 13. nóvember. Sálgæslan er sérverkefni saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar en hann er höfundur allra laga og texta á plötunni. Tónlistin teygir sig í ýmsar áttir og er einhvers staðar á mörkum jazz, blús og soul tónlistar, og textarnnir eru í sérflokki þar sem umfjöllunarefnin eru mörg hver óvenjuleg. Söngvarar plötunnar eru sex talsins; KK, Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilmarsson, Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal.

BERRÖSSUÐ Á TÁNUM eftir Aðalstein og Sigrúnu

Haustið 1995 stökk kötturinn Krúsilíus alskapaður út úr höfði höfundarins og á eftir fylgdu ótal söngvar sem rötuðu til hlustenda og áhorfenda á öllum aldri í eftirminnilegum flutningi Önnu Pálínu og Aðalsteins Ásbergs.

Nú er komin út glæsileg 25 ára afmælisútgáfa þar sem söngljóð Aðalsteins og myndir Sigrúnar Eldjárn fá að njóta sín til fulls. Bullutröllin, Eldurinn, Hákarlinn, Umskiptingurinn, Kóngulóin og allar hinar persónurnar eru enn í fullu fjöri.

BERHÖFÐA LÍF – úrval ljóða eftir Emily Dickinson

Bandaríska skáldkonan Emily Dickinson (1830–1886) er eitt merkasta ljóðskáld síðari alda. Hér birtist heilsteypt úrval af ljóðum hennar ásamt ítarlegum inngangi þýðanda, Magnúsar Sigurðssonar, sem hefur rannsakað ljóðlist Dickinson um árabil. Dregin er upp mynd af róttæku skáldi sem gekk gegn viðteknum samfélagsvenjum; af konu sem hlýddi kröfum eigin tilfinningalífs í trássi við ýmsa ríkjandi siði og þjónaði köllun sinni af dirfsku. 

UMSKIPTIN

Síðasta útgáfubók haustsins er komin í búðir. UMSKIPTIN sem Anna Höglund á heiðurinn af, bæði texta og myndum, en hún var líka myndhöfundur bókarinnar SJÁÐU HAMLET, sem kom út í fyrra og hlaut mjög góðar viðtökur. Í þessari nýju bók er spennandi og ævintýraleg frásögn sem höfðar bæði til yngri og eldri lesenda, enda er efnið sígilt.

Þorgerður Ása sendir frá sér geisladiskinn Í RAUÐUM LOGA

Í rauðum loga er titillinn á fyrsta geisladisk Þorgerðar Ásu. Á honum eru 11 lög, ýmist frumsamin eða aðfengin, en þar á meðal eru nokkur norræn lög með nýjum íslenskum textum. Smáskífan Þú munt sjá á eftir mér sem kom út í september ásamt samnefndu myndbandi hefur hlotið afar góðar viðtökur. Meðal höfunda sem eiga efni á plötunni eru Aðalsteinn Ásberg, Eivør Pálsdóttir, Mats Paulson, Iðunn Steinsdóttir, Lasse Tennander og Barbara Helsingius.  Ásamt Þorgerði Ásu syngja þau Álfgrímur Aðalsteinsson og Vigdís Hafliðadóttir í þremur lögum. Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir í Safnahúsinu við Hverfisgötu 29. október næstkomandi.

SÖGUSAGNIR eftir Jón Karl Helgason

Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur er titill á nýútkominni bók eftir Jón Karl Helgason. Verkið fjallar um skáldverk sem varpa áhugaverðu ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk sjálfsögur á íslensku en Jón Karl kynnir fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi. Þetta eru þeir Sigurður Nordal með leikritinu Uppstigningu (1945), Elías Mar með skáldsögunni Eftir örstuttan leik (1946) og Gunnar Gunnarsson með skáldsögunni Vikivaka (1948).  Síðasti kafli Sögusagna er helgaður skáldsögunni Turnleikhúsinu (1979) eftir Thor Vilhjálmsson og tengslum hennar við póstmóderníska fagurfræði.

500 DAGAR AF REGNI eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

500 dagar af regni er safn níu smásagna úr íslenskum samtíma þar sem dregin eru fram lykilaugnablik í lífi fólks.  Í gagnrýni um bókina segir Rebekka Sif Stefánsdóttir meðal annars: „Í bókinni eru níu fjölbreyttar smásögur en dauðinn og myrkrið er nærri í flestum þeirra. Flestar þeirra koma til okkar úr hversdagsleikanum en ein sagnanna hefur súrrealískari blæ og skar sig úr hópnum. Það er sagan „Veröld ný og blaut“ þar sem ungur maður vaknar að morgni og sér að borgin hafi horfið í sjó um nóttina. … Að mínu mati er þetta ein sterkasta sagan í smásagnasafninu og áhugavert verður að fylgjast með hvaða stefnu þessi nýi höfundur tekur í sínum næstu verkum.“ Bókin hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2020. Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson er 26 ára Kópavogsbúi og hefur áður birt sögur og greinar í tímaritum.