Dimma

stofnuð 1992


Skrifa athugasemd

Jóhanna Kristín Yngadóttir

Út er komin afar vegleg og löngu tímabær listaverkabók um Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur (1953-1991) sem á örstuttum ferli náði að vekja umtalsverða athygli, enda er framlag hennar til íslenskrar myndlistar bæði mikilvægt og óvenjulegt. Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur fjallar um líf hennar og list, en Oddný Eir Ævarsdóttir nálgast verk hennar með óhefðbundnum og persónulegum hætti.

Bókin er gefin út í tengslum við yfirlitssýningu á verkum hennar í Listasafni Íslands.


Skrifa athugasemd

Juliana Léveillé-Trudel: NIRLIIT

NIRLIIT_fosidaxEins og gæsirnar (nirliit á Inuttitut, tungumáli inúíta) kemur ung kona á vorin að sunnan, þ.e. frá suðurhluta Québec-fylkis í Kanada, norður til Salluit í Nunavik-héraði þar sem hún sinnir árstíðabundnu starfi. Í bókinni ávarpar hún Evu vinkonu sína sem er horfin og hefur að öllum líkindum verið myrt án þess að lík hennar hafi fundist. Sögukonan tvinnar saman frásagnir af starfi sínu með börnum, kynnum af Evu og öðrum Salluit búum og örlögum Elijah, sonar Evu, eftir hvarf móður hans. Frásagnir af ástum og afbrýði, fíknum og flótta frá nöturlegum aðstæðum í einni af nyrstu byggðum manna á jarðkringlunni, þar sem landslag er ægifagurt og ógnvekjandi í senn.

Jóhanna Björk Guðjónsdóttir íslenskaði


Skrifa athugasemd

Einmunatíð og fleiri sögur

Í þessu rómaða smásagnasafni lýsir Orkneyjaskáldið George Mackay Brown með Einmunatíð_kápa_300eftirminnilegum hætti lífi og örlögum fólks sem oftar en ekki býr við kröpp kjör og heyir harðvítuga baráttu við náttúruöflin. Sögusviðið er eyjarnar fyrir norðan Skotland og margt minnir óneitanlega á Ísland fyrri tíma, þegar sjómenn og kotbændur unnu hörðum höndum til að framfleyta sér og sínum.

Einmunatíð og fleiri sögur kom fyrst út á frummálinu fyrir réttri hálfri öld og hlaut þegar afbragðs viðtökur. Með henni festi Mackay Brown sig í sessi meðal markverðustu sagnaskálda Skota á síðustu öld, enda bókin löngu orðin sígild.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði


Skrifa athugasemd

Þrjár nýjar ljóðaútgáfur

      Sjö ljóð_300dpi      Þaðan sem við horfum_300dpi      Kennsl_300dpi

Þrjár ljóðabækur eru nýkomnar út í tilefni af heimsókn þriggja skálda til Íslands. Ljóðaþrennan ber heitið Bréf til Íslands – Letters to Iceland, ritstjórar eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Ástráður Eysteinsson.

Sjö ljóð – Paul Muldoon

Paul Muldoon fæddist á Norður-Írlandi árið 1951. Hann hóf skáldferil sinn um tvítugt og hefur sent frá sér um þrjá tugi ljóðabóka. Meðal fjölmargra viðurkenninga sem honum hafa hlotnast eru Pulitzer-ljóðaverðlaunin, Griffin-verðlaunin og hin virtu T.S. Eliot-verðlaun. Muldoon er gjarnan talinn fremsta írska ljóðskáld þeirrar kynslóðar sem kom á eftir Nóbelskáldinu Seamus Heaney en honum tengdist Muldoon vinaböndum. Í ljóðum sínum fléttar Muldoon gjarnan saman vísunum í forna og nýja menningarheima og beinir sjónum norður á bóginn. Í þessu ljóðakveri lítur hann meðal annars til Íslands tvennra tíma. Muldoon hefur verið búsettur vestanhafs um árabil og er ljóðlistarkennari við Princeton-háskólann.

Ljóðin í þessari tvímála útgáfu eru ný af nálinni og hafa ekki áður birst í bókarformi.

Sjón íslenskaði

Þaðan sem við horfum – Simon Armitage

Simon Armitage fæddist árið 1963 í Marsden, nálægt borginni Huddersfield í Jórvíkurskíri  á Englandi. Hann býr og starfar skammt frá þessum æskuslóðum sínum. Hann er ljóðskáld og höfundur leikrita, ferðabóka og skáldsagna, auk þess að vera þýðandi sígildra verka og fornenskra bókmennta á nútímaensku. Árið 1994 fetaði hann ásamt Glyn Maxwell í fótspor W.H. Auden og Louis MacNeice á Íslandi, og svöruðu þeir bókinni Letters From Iceland (1937) með verki sínu Moon Country. Ennfremur er Armitage textahöfundur og söngvari hljómsveitarinnar The Scaremongers og hefur kennt ritlist við marga virta háskóla beggja vegna Atlantsála. Simon Armitage hefur hlotið fjölda merkra verðlauna fyrir skáldskap sinn í hinum enskumælandi heimi og var nýverið útnefndur lárviðarskáld Bretlands.

Í þessari tvímála útgáfu birtast ljóð úr nokkrum af bókum hans og einnig þýðing á prósatextanum „Norður“.

Sigurbjörg Þrastardóttir íslenskaði

 

Kennsl – Lavinia Greenlaw

Lavinia Greenlaw fæddist í London árið 1962 og hefur lengstum verið búsett þar. Hún hefur verið í fremstu röð enskra ljóðskálda á síðustu áratugum, en auk ljóða samið skáldsögur, óperutexta og úrvarpsleikrit. Hún er menntuð í myndlist og listfræði og hefur skrifað um tónlist og samið hljóðverk. Þessi fjölhæfni í miðlun og ígrundun um mismunandi skynjun og næmi setur víða svip sinn á ljóðaheim hennar. Í bókinni Questions of Travel (2011) kallast hún á við valin brot úr dagbókum Williams Morris úr Íslandsför hans. Norðrið leitar víðar fram í verkum hennar, meðal annars í því úrvali ljóða sem hér birtist undir heitinu Kennsl. Lavinia Greenlaw er margverðlaunaður rithöfundur. Hún er einnig eftirsóttur kennari í ritlist og hefur um árabil starfað á því sviði við virta háskóla.

Í þessari tvímála útgáfu birtast ljóð úr nokkrum af bókum hennar.

Magnús Sigurðsson íslenskaði

 


Skrifa athugasemd

Þetta er Alla tilnefnd

ÞETTA ER ALLA eftir Jon Fosse í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar hefur verið tilnefnd til FOSSE_Alla_xwÍslensku þýðingarverðlaunanna ásamt fimm öðrum skáldverkum.

Í umsögn dómnefndar segir:

Jon Fosse er einn kunnasti samtímahöfundur Norðmanna, afkastamikill skáldsagnahöfundur, ljóðskáld og leikskáld. Þetta er Alla segir frá lífi, dauða og missi í litlu húsi við norskan fjörð. Sagan gerist í hugarflæði og spannar í senn fáeinar klukkustundir og margar kynslóðir. Fortíð og nútíð renna saman í löngum málsgreinum sem flæða eins og öldur og draga lesandann inn í heim sögunnar. Þetta er Alla er fimmta bók Jons Fosse sem kemur út í íslenskri þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar. Þýðing Hjalta virkar áreynslulaus, á látlausu máli sem fellur vel að efni og inntaki sögunnar.


Skrifa athugasemd

UMBRA – Sólhvörf

Ný plata með Umbru hefur litið dagsins ljós. Sólhvörf heitir hún og hefur að geyma 11 DIM 81 Sólhvörfíslensk og evrópsk jólalög, flest frá miðöldum. Útsetningar eru nær allar að hætti Umbru, en hana skipa Alexandra Kjeld, Arngerður María Árnadóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir. Gestaleikarar á Sólhvörfum eru Matthías M.D. Hemstock og Þórdís Gerður Jónsdóttir.

Vetrarsólstöður eða sólhvörf er sá tími ársins þegar sólargangurinn er stystur og nóttin lengst. Frá og með þessum tímamótum, sem hefur verið tilefni hðátíðahalda á norðurhveli jarðar frá örófi alda, birtir smám saman til.

Áður hefur Umbra sent frá sér plötuna Úr myrkrinu sem hlaut frábæra dóma og viðtökur.


Skrifa athugasemd

Dvergasteinn – ný útgáfa

Verðlaunabókin Dvergasteinn eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson er komin út í þriðja sinn, en hún kom fyrst út árið 1991. Sagan hefur allar götur síðan notið mikilla vinsælda og m.a. í tvígang verið gefin út á hljóðbók, auk þess að vera þýdd og gefin út á fjölda tungumála. Nýju útgáfuna prýða upphaflegar teikningar eftir Erlu Sigurðardóttur.

Dvergasteinn KápaHúsið hennar ömmu Karólínu heitir Dvergasteinn. Í garðinum á bakvið það er líka stór og dularfullur steinn sem ber sama nafn. Þegar Ugla heimsækir ömmu sína verður hún margs vísari og gamalt leyndarmál verður til þess að hún kemst í kynni við íbúa steinsins.

 


Skrifa athugasemd

Meira af Rummungi ræningja

Rummungur ræningi er aftur kominn á kreik og hefur numið ömmu á brott. Nú eru Meira af Rummungi ræningja forsíðagóð ráð dýr. Kasper, Jobbi og Fimbulfúsi yfirvarðstjóri eiga ekki margra kosta völ, en vonandi tekst þeim að hafa hendur í hári þessa óskammfeilna svikahrapps.

Önnur bókin af þremur um Rummung ræningja sem hefur heillað lesendur í meira en hálfa öld og birtist nú í fallegri afmælisútgáfu. Höfundurinn Otfried Preußler var á sinni tíð einn vinsælasti barnabókahöfundur Þýskalands. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði.


Skrifa athugasemd

Guðrún Gunnars – EILÍFA TUNGL

Ný plata með Guðrúnu Gunnars er komin út. Lög og ljóð eru að hluta eru samin DIM 80 Eilífa tunglsérstaklega fyrir hana, en að auki eru fáeinir erlendir söngvar með nýjum íslenskum textum. Hljóðfæraleikarar: Ásgeir Ásgeirsson, gítar og tamboura, Gunnar Gunnarsson píanó og rhodes, Hannes Friðbjarnarson, trommur og slagverk, Þorgrímur Jónsson, kontrabassi. Svavar Knútur syngur dúett með Guðrúnu í einu lagi og Þórdís Gerður Jónsdóttir leikur á selló í öðru.

Fyrri sólóplötur Guðrúnar eru: Óður til Ellyjar (2003), Eins og vindurinn (2004), Umvafin englum (2008) og Cornelis Vreeswijk (2009).