Ljóðasafn Einars Braga væntanlegt

Í dag, 7. apríl 2021, eru liðin 100 ár frá fæðingu skáldsins Einars Braga. Þessa dagana erum við að leggja síðustu hönd á veglegt, tveggja binda LJÓÐASAFN með frumsömdum og þýddum ljóðum hans. Nýja útgáfan er væntanleg eftir fáeinar vikur! Einar Bragi var í fylkingarbrjósti atómskáldanna og átti stóran þátt í þeim straumhvörfum sem urðu í íslenskri ljóðagerð eftir miðja síðustu öld.

ALDARFAR til heiðurs Jóni Múla

Andrés Þór & Agnar Már heiðra Jón Múla Árnason. Geisladiskurinn kemur út 31. mars, en þá er einmitt öld liðin frá fæðingu Jóns Múla, og hér er að finna nokkur af þekktustu lögum hans, auk tveggja frumsaminna verka til heiðurs jazzmeistaranum. Efnið var hljóðritað í Kaldalóni í Hörpu. Andrés Þór leikur á gítar og Agnar Már á píanó, en báðir eru þeir í fremstu röð íslenskra jazztónlistarmanna

.

Ferðataskan

eftir Sergej Dovlatov

Áslaug Agnarsdótttir íslenskaði

Rússneski rithöfundurinn Sergej Dovlatov sendi frá sér á annan tug bóka, flestar eftir að hann fluttist frá heimalandinu og settist að í Bandaríkjunum. Ferðataskan er eitt af þektustu verkum hans og kom fyrst út árið 1986.

Í átta lauslega tengdum köflum gerir höfundur sér mat úr innihaldi töskunnar sem hann hafði meðferðis í sjálfskipaða útlegð til til New York árið 1978. Áður hefur Dimma gefið út söguna Kona frá öðru landi eftir Dovlatov, einnig í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur.

Þrjár af sjö tilnefningum til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár!

Það er einstaklega ánægjulegt að 3 tilnefningar af 7 til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár eru vegna bóka sem DIMMA gefur út! Okkar fólk sem tilnefnt er:

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir 43 smámunir eftir Katrinu Ottarsdóttir

Guðrún Hannesdóttir fyrir skáldsöguna Dyrnar eftir Mögdu Szabó

Magnús Sigurðsson fyrir ljóðabókina Berhöfða líf – úrval ljóða eftir Emily Dickinson

Hér má sjá frétt um tilnefningarnar!

BLÁSÝRA með Sálgæslunni

Blásýra, nýr tíu laga diskur Sálgæslunnar, kemur út í dag, föstudaginn 13. nóvember. Sálgæslan er sérverkefni saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar en hann er höfundur allra laga og texta á plötunni. Tónlistin teygir sig í ýmsar áttir og er einhvers staðar á mörkum jazz, blús og soul tónlistar, og textarnnir eru í sérflokki þar sem umfjöllunarefnin eru mörg hver óvenjuleg. Söngvarar plötunnar eru sex talsins; KK, Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilmarsson, Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal.

BERRÖSSUÐ Á TÁNUM eftir Aðalstein og Sigrúnu

Haustið 1995 stökk kötturinn Krúsilíus alskapaður út úr höfði höfundarins og á eftir fylgdu ótal söngvar sem rötuðu til hlustenda og áhorfenda á öllum aldri í eftirminnilegum flutningi Önnu Pálínu og Aðalsteins Ásbergs.

Nú er komin út glæsileg 25 ára afmælisútgáfa þar sem söngljóð Aðalsteins og myndir Sigrúnar Eldjárn fá að njóta sín til fulls. Bullutröllin, Eldurinn, Hákarlinn, Umskiptingurinn, Kóngulóin og allar hinar persónurnar eru enn í fullu fjöri.

BERHÖFÐA LÍF – úrval ljóða eftir Emily Dickinson

Bandaríska skáldkonan Emily Dickinson (1830–1886) er eitt merkasta ljóðskáld síðari alda. Hér birtist heilsteypt úrval af ljóðum hennar ásamt ítarlegum inngangi þýðanda, Magnúsar Sigurðssonar, sem hefur rannsakað ljóðlist Dickinson um árabil. Dregin er upp mynd af róttæku skáldi sem gekk gegn viðteknum samfélagsvenjum; af konu sem hlýddi kröfum eigin tilfinningalífs í trássi við ýmsa ríkjandi siði og þjónaði köllun sinni af dirfsku. 

UMSKIPTIN

Síðasta útgáfubók haustsins er komin í búðir. UMSKIPTIN sem Anna Höglund á heiðurinn af, bæði texta og myndum, en hún var líka myndhöfundur bókarinnar SJÁÐU HAMLET, sem kom út í fyrra og hlaut mjög góðar viðtökur. Í þessari nýju bók er spennandi og ævintýraleg frásögn sem höfðar bæði til yngri og eldri lesenda, enda er efnið sígilt.