SVEFNGARÐURINN eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

Sögurnar í Svefngarðinum eru ólíkar en tengjast þó ýmsum þráðum. Saman mynda þær ferðalag gegnum tímann – allt frá upphafi síðustu aldar til fjarlægrar framtíðar. Afskræmdir minningarheimar og svikul undirmeðvitundin gera skilin milli draums og veru æði óskýr. Fyrsta bók þessa unga og áhugaverða höfundar, 500 dagar af regni, kom út í fyrra og vakti verðskuldaða athygli. Hér eru efnistökin ólík en ekki síður heillandi. 

Verð: 4.900,-

VENDIPUNKTAR eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson

Hvar í lífinu leynast vendipunktarnir sem geta sett okkur út af sporinu og markað nýtt upphaf eða óvænt endalok? Í sjö áhrifaríkum smásögum opnar höfundur lesendum dyr að tímabundnum viðkomustöðum margra ólíkra persóna. Reykjavík nútímans, gamalt hótel í New York, afskekkt sjávarpláss á Íslandi, eldhús fáránleikans á grískri eyju og bókastofa eftirlaunamanns eru þar á meðal. Óreiðukenndir draumar, ástarsambönd og vináttutengsl ráða för og skapa um leið ýmiskonar vandamál.  

Verð: 4.900,-

Einar Bragi: LJÓÐASAFN

Einar Bragi (1921-2005) var í fylkingarbrjósti atómskáldanna svonefndu og átti stóran þátt í þeim straumhvörfum sem urðu í íslenskri ljóðagerð um og eftir miðja 20. öld. Hann gaf út fjölda ljóðabóka, fór oft ótroðnar slóðir varðandi útgáfu þeirra, var frumkvöðull að stofnun tímaritsins Birtings og atkvæðamikill þýðandi erlendra ljóða. 

Í þessari útgáfu birtist meginþorri frumortra ljóða Einars Braga, allt frá fyrstu ljóðabókinni, Eitt kvöld í júní (1950), til þeirrar síðustu, Ljós í augum dagsins (2000), auk viðamikils úrvals af ljóðaþýðingum hans sem einnig spanna rúmlega hálfa öld. 

Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur valdi ljóðin og ritar ítarlegan inngang þar sem fram kemur ný sýn á feril skáldsins.

Verð: 8.900,-

EINBEITTUR BROTAVILJI með Sálgæslunni

Ný fjórtán laga plata frá Sálgæslunni, sérverkefni saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar sem er jafnframt höfundur allra laga og texta plötunnar. Einbeittur brotavilji er þriðja breiðskífa Sálgæslunnar.

Tónlist plötunnar teygir sig í ýmsar áttir og hvílir einhversstaðar á mörkum jazz, blús og sálartónlistar. Söngvarar á plötunni eru sjö talsins, en það eru Helgi Björnsson, KK, Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilmarsson, Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal.

Segja má að platan sé óður til íslenska smáglæpamannsins en brennivínsberserkir, eltihrellar, siðleysingjar og smákrimmar eru aðalpersónur margra laganna. Þá kemur margbreytileiki mannlegrar kynhegðunar einnig við sögu.

Auk Sigurðar sem leikur á saxófón spilar Þórir Baldursson á Hammond-orgel, Einar Scheving á trommur og Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar. Aðstoðarhljóðfæraleikarar eru Ari Bragi Kárason á trompet, Samúel J. Samúelsson á básúnu, Matthías Stefánsson á fiðlu og Bryndís Björgvinsdóttir á selló. Hafþór „Tempó“ Karlsson annaðist hljóðritun, blöndun og hljómjöfnun. Sigríður Hulda Sigurðardóttir hannaði umslag.

Verð: 3.000,-

KONA Á FLÓTTA

eftir Anaïs Barbeau-Lavalette

Jóhanna Björk Guðjónsdóttir íslenskaði

Listakonan Suzanne Meloche fæddist árið 1926 inn í frönskumælandi fjölskyldu í Ottawa í Kanada og ólst þar upp til 18 ára aldurs, í skugga ofríkis kaþólsku kirkjunnar og enskumælandi meirihlutans. Hún var óstýrilát og skapandi og vildi umfram allt ekki hljóta sömu örlög og móðir hennar sem fæddi hvert barnið á fætur öðru eins og ætlast var til af konum í þá daga. Til að forðast það hlutskipti átti Suzanne eftir að fara víða og reyna margt, en fórna um leið hugarró og hamingju fjölskyldunnar. Dótturdóttir hennar ákvað að grafast fyrir um lífshlaup ömmu sinnar og byggir þessa áhrifamiklu skáldsögu á því. 

Höfundurinn, Anais Barbeau-Lavalette, er ekki síður þekkt fyrir kvikmyndagerð, en bækur hennar hafa hlotið afbragðs viðtökur og sú sem hér birtist hlaut m.a. France-Québec verðlaunin og Grand Prix du Livre de Montréal.

Verð: 3.000,-

Roger McGough: Fimm leiðir til að komast óhultur gegnum dimman skóg um nótt

Óskar Árni Óskarsson þýddi

Roger McGough er eitt þekktasta núlifandi skáld Breta og hefur á rúmlega 50 ára ferli sent frá sér tugi ljóðabóka auk annarrra skáldverka. Upphaf ferils hans má rekja til útgáfu The Mersey Sound, ljóðaúrvals þriggja ungskálda sem kenndu sig ýmist við heimabæinn Liverpool eða fljótið Mersey sem rennur í gegnum borgina. Bókin sló í gegn, en segja má að Mersey-skáldin hafi verið einskonar svar Breta við amerísku beatskáldunum. 

Ljóðin í þessu úrvali á íslensku spanna að nokkru leyti allan feril skáldsins, þau elstu frá sjöunda áratugnum og þau yngstu úr bókinni As far as I know frá 2012.  

Verð: 2.500,-

Tvær stórskemmtilegar eftir Hal Sirowitz!

SAGÐI MAMMA og SAGÐI SÁLFRÆÐINGURINN MINN

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði

Óvenjulegt og gáskafullt ljóðasafn þar sem hversdagsleg heilræði eru sett í broslegt samhengi. Efnið kemur kunnuglega fyrir sjónir því margt er líkt með mæðrum og sonum hvar sem er í heiminum. Ást og umhyggja eru auðvitað af hinu góða, en stundum virðist samt of langt gengið. 

Bókin kom fyrst út á íslensku árið 2001, hlaut rífandi viðtökur og birtist nú í þriðju útgáfu. Ljóð höfundarins hafa ratað víða og bækur hans átt miklum vinsældum að fagna bæði í heimalandinu og annars staðar.   

Verð: 3.000,-

Bandaríska skáldið Hal Sirowitz fylgdi metsölubókinni Sagði mamma eftir með þessari bráðfyndnu og einstöku bók. Hér úir og grúir af svörtum húmor og hin óborganlega mamma er ætíð í nánd til að gefa góð ráð eða gagnrýna. Eins bregður pabba fyrir með sín föðurlegu heilræði og kaldhæðni. Samtölin við sálfræðinginn eru þó í fyrirrúmi og vandamálin sem snúast flest um flókin samskipti kynjanna.

Sagði sálfræðingurinn er þriðja bókin eftir Hal Sirowitz á íslensku. Sagði mamma (2001) og Sagði pabbi (2006) hlutu báðar einstaklega góðar viðtökur.

Verð: 3.000,-

Gyrðir tilnefndur fyrir DRAUMSTOL

Gyrðir Elíasson er tilnefndur til Maístjörnunnar fyrir DRAUMSTOL, en þessi ljóðabókarverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verða veitt í fimmta sinn í maí. Fjórir aðrir höfundar eru tilnefndir fyrir bækur sem út komu á síðasta ári: Arndís Lóa Magnúsdóttir fyrir Taugaboð á háspennulínu, Halla Þórlaug Óskarsdóttir fyrir Þagnarbindindi, Linda Vilhjálmsdóttir fyrir Kyrralífsmyndir og Ragnheiður Lárusdóttir fyrir 1900 og eitthvað. Bækurnar eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar og það kemur svo í ljós í maí hver hlýtur stjörnuna!

Ljóðasafn Einars Braga væntanlegt

Í dag, 7. apríl 2021, eru liðin 100 ár frá fæðingu skáldsins Einars Braga. Þessa dagana erum við að leggja síðustu hönd á veglegt, tveggja binda LJÓÐASAFN með frumsömdum og þýddum ljóðum hans. Nýja útgáfan er væntanleg eftir fáeinar vikur! Einar Bragi var í fylkingarbrjósti atómskáldanna og átti stóran þátt í þeim straumhvörfum sem urðu í íslenskri ljóðagerð eftir miðja síðustu öld.

ALDARFAR til heiðurs Jóni Múla

Andrés Þór & Agnar Már heiðra Jón Múla Árnason. Geisladiskurinn kemur út 31. mars, en þá er einmitt öld liðin frá fæðingu Jóns Múla, og hér er að finna nokkur af þekktustu lögum hans, auk tveggja frumsaminna verka til heiðurs jazzmeistaranum. Efnið var hljóðritað í Kaldalóni í Hörpu. Andrés Þór leikur á gítar og Agnar Már á píanó, en báðir eru þeir í fremstu röð íslenskra jazztónlistarmanna.

Verð: 3.000,-