Skuggaskip

Gyrðir Elíasson. Skuggaskip. Reykjavík: Dimma, 2019.

Skuggaskip er tíunda smásagnasafn Gyrðis Elíassonar  sem margir telja meistara íslenskra smásagna í seinni tíð, enda gætir áhrifa frá verkum hans víða. Bernskuminningar, brothætt hjónalíf, innlit í fjarlæga framtíð, dularfullur skógur og handrit sem glatast, svo eitthvað sé nefnt – allt eru þetta viðfangsefni sem vert er að kynnast nánar í meðförum höfundarins. Í dómi sínum um verkið fyrir Rás 1 sagði Maríanna Clara Lúthersdóttir meðal annars:

„Einn af helstu kostum Gyrðis sem höfundar er að hann gætir sín yfirleitt að segja ekki of mikið, hann veit sem er að óþægilegur tónn, þrúgandi andrúmsloft og allt hið ósagða vekja hjá lesandanum miklu sterkari viðbrögð en það sem er skrifað hreint út. Hann blekkir lesandann með því að lýsa nákvæmlega ýmsum smáatriðum en skilur svo eftir eyður í heildarmyndinni. Í bestu sögunum ýjar hann að einhverju, stígur skref til baka og lætur bæði persónur frásagnanna og lesandann rýna í þessar eyður með ugg í brjósti. Skuggaskip er bók af því taginu sem maður leggur frá sér til þess eins að rífa strax upp aftur, ýmist til að endurlesa einhverja sögu eða lesa bara eina í viðbót.“