Magnús Sigurðsson sendir frá sér verkið Veröld hlý og góð en það er blanda af ljóðum og stuttum prósum um manninn í náttúrunni og náttúruna í manninum, þar sem kallast á kímni og alvara. Þetta er fimmta frumsamda ljóðabók höfundar, sem hlotið hefur afbragðsdóma og verðlaun fyrir verk sín. Í viðtali í Morgunblaðinu sagði Magnús meðal annars um tilurð bókarinnar:
„Upphaflega var þetta „hreint“ ljóðahandrit en svo varð ég þreyttur á mörgum ljóðanna sem voru lítið annað en línuskiptir prósatextar, svo ég endurskrifaði þau sem smáprósa eða stuttar frásagnir … Kannski mætti tala um ljóðprósa, því þetta eru ekki beinlínis ljóð held ég, þótt uppruninn sé í öllum tilvikum „ljóðrænn“. Norska skáldið Tor Ulven talaði um hversu frelsandi það er að taka stökkið frá naumhyggju ljóðsins til alls rýmisins sem prósaskáldskapur býður upp á – það sé eins og aðflytjast úr varðturni í höll. En miskunnarleysi naumhyggjunnar hefur líka sinn sjarma, og varðturnarnir geta svo sannarlega verið nauðsynlegir á viðsjárverðum tímum!“