Tomas Tranströmer. Eystrasölt. Reykjavík: Dimma, 2012.
Einstaklega vönduð viðhafnarútgáfa af ljóðabókinni Eystrasölt eftir sænska skáldið Tomas Tranströmer sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 2011. Hjörtur Pálsson íslenskaði verkið og útgáfunni fylgir ennfremur geisladiskur með upplestri hans. Östersjöar heitir bókin á frummálinu og kom fyrst út árið 1974. Hún hefur talsverða sérstöðu meðal verka Tranströmers og er vel til þess fallin að standa ein og sér.
Íslenska útgáfan er vandaður prentgripur og kemur út í 175 tölusettum eintökum, árituðum af þýðanda. Bókarkápu prýðir málverk eftir Eggert Pétursson.
Tomas Tranströmer (f. 1931) gaf út fyrstu ljóðabók sína, 17 dikter, 1954 og vakti strax talsverða athygli fyrir nýjan tón, hnitmiðað form og sérstæð og persónuleg efnistök. Ljóðabækur hans eru 15 talsins. Fyrir eina þeirra, För levande och döda, voru honum veitt bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1990, en sú síðasta er Den stora gåtan (2004).
Hjörtur Pálsson, skáld og þýðandi, hefur m.a. sent frá sér allmargar frumsamdar og þýddar ljóðabækur, auk rómaðra þýðinga á skáldsögum Nóbelsverðlaunahöfundarins Isaac Bashevis Singer.