Draumstol er sextánda frumsamda ljóðabók Gyrðis Elíassonar. Bókin er 125 bls. innbundin og skartar kápumynd eftir skáldið. Í gagnrýni sinni um bókina, sem flutt var á Rás 1, segir Gauti Kristmannsson meðal annars: „Þetta eru ljóð eins og við erum vön nútímaljóðum, án ríms og reglubundinnar hrynjandi, þau hanga saman á merkingarkeðjum sínum, bæði innan hvers ljóðs og einnig innan bókarinnar í gegnum merkingarþemu eins og drauma, lauf, umbreytingar, nú eða hengirúm, að e.e. cummings ógleymdum. En skáldið er líka að skemmta sér aðeins, ekki með neinum gauragangi, heldur með léttum húmor blönduðum saman við dálitla kaldhæðni hér og þar.“