Píanóleikarinn Kristján Martinsson stofnaði K Tríó í ársbyrjun 2008, en ásamt honum skipa tríóið Pétur Sigurðsson bassaleikari og Magnús Trygvason Eliassen trommuleikari. K Tríó kom fram á Jazzhátíð Reykjavíkur sumarið 2008 og í september sama ár var það fulltrúi Íslands í samkeppni ungra norrænna jazztónlistarmanna í Kaupmannahöfn. Fór K Tríó með sigur af hólmi í þeirri keppni og gaf í kjölfarið út sinn fyrsta geisladisk sem hlaut afbragðs góðar viðtökur. Rekaviður inniheldur frumsamið efni sem tríóið hljóðritaði í lok desember 2009 í Hljóðveri FÍH. Upptökur, hljóðblöndun og tónjöfnun var í höndum Birgis Jóns Birgissonar. Hrafnhildur Helgadóttir hannaði umslag.