Hér kemur saxófónleikarinn Sigurður Flosason fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tveimur einleikskonsertum, sem báðir voru skrifaðir sérstaklega fyrir hann. Verkin eru Rætur, konsert fyrir saxófón og hljómsveit eftir Veigar Margeirsson, kvikmyndatónskáld í Kaliforniu og Zones fyrir saxófón og sinfóníska strengjasveit eftir sænska jazztónlistarmanninn Ulf Adåker. Þess má geta að verk Veigars byggir að hluta á íslenskum þjóðlagastefjum. Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands en upptökurnar voru gerðar í Háskólabíói 2003 (Zones) og 2008 (Rætur). Báðir konsertarnir krefjast umtalsverðs spuna af hálfu einleikarans, en slíkt er mjög óvenjulegt. Hér mætir jazz klassík, spuni skrifuðu tónmáli og ný tónlist gamalli. Óhætt er að fullyrða að hér eru um að ræða afar metnaðarfullt verkefni sem á sér enga hliðstæðu í íslenskri tónlistarsögu. Sigurður Flosason er fjórfaldur handhafi íslensku tónlistarverðlaunanna og frumflutningur Róta fékk fimm stjörnu dóm í Morgunblaðinu.