Ewa Lipska fæddist árið 1945 í Kraká í Póllandi og sendi frá sér fyrstu ljóðbók sína árið 1967. Sú bók vakti mikla athygli og síðan hafa komið nær tveir tugir ljóðabóka út eftir hana. Þótt vissulega megi telja að Ewa tilheyri nýbylgjuskáldunum í Póllandi sem komu fram á sjónarsviðið undir lok sjöunda áratugar liðinnar aldar hefur hún sjálf alla tíð lagt á það áherslu að hún sé hvorki bundin straumum né stefnum.
Neyðarútgangur er úrval ljóða eftir Ewu. Í bókinni er valið efni úr öllum útgefnum ljóðabókum skáldsins sem er meðal þekktustu samtímaskálda Pólverja. Olga Holwnia valdi efnið og ritstýrði verkinu en þýðendur eru: Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson, Olga Holownia og Óskar Árni Óskarsson.