Ana María Shua

Ana Maria ShuaAna María Shua hefur skipað sér sess meðal virtustu rithöfunda Argentínu. Húnfæddist árið 1951 í Búenos Aires. Aðeins sextán ára gömul gaf hún út fyrstu bók sína, ljóðabókina Sólin og ég (El sol y yo), en síðan leið áratugur þar til næsta verk kom út. Í millitíðinni lauk hún meistaraprófi í bókmenntum frá Þjóðarháskólanum í Búenos Aires og vann við textagerð á auglýsingastofu og sem blaðamaður. Þegar herforingjastjórnin tók völdin árið 1976 fór hún í útlegð til Parísar ásamt eiginmanni sínum og sneri aftur heim fáeinum árum síðar. Shua hefur sent frá sér margvísleg verk: skáldsögur, smásögur, ljóð, barnabækur, kvikmyndahandrit og ýmislegt fleira en er einkum þekkt fyrir örsögur sínar. Örsagnasöfnin eru fimm talsins, hið síðasta Fenómenos de circo (Fyrirbæri úr fjölleikahúsi) kom út 2013 og fyrir það hlaut Shua Þjóðarbókmenntaverðlaun Argentínu 2014 fyrir smáprósa sína og smásögur. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála.

Á íslensku:

Smáskammtar, 2015 

Í þessu úrvali af örsögum hennar er leitast við að gefa sem besta mynd af þeim sagnaheimi sem hún hefur skapað. Hér eru saman komnar 100 sögur úr fimm ólíkum sagnasöfnum sem mynda þó ákveðna heild og leiða lesandann á framandi slóðir.

Kristín Guðrún Jónsdóttir valdi, þýddi og ritaði eftirmála.