Dimma

stofnuð 1992


1 athugasemd

Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson

Gyrðir Elíasson leggur hér lokahönd á sagnaþríleik sem hófst með Sandárbókinni og var síðan fram haldið í Suðurglugganum, en báðar fjölluðu þær með áleitnum hætti um líf og störf listamanna, önnur um málara en hin um rithöfund.  

Sorgarmarsinn segir af textasmiðnum Jónasi sem hallar sér þó aðallega að tónlistinni og hefur fundið sér athvarf í litlu þorpi á Austfjörðum. Táknræn og hrífandi frásögn af sköpun, orðleysi og einskonar pattstöðu í flóknu samspili lífs og listar.

 


Skrifa athugasemd

Að lesa ský – ljóðaþýðingar Magnúsar Sigurðssonar

AÐ LESA SKÝ – ljóð frá Bandaríkjum Norður-Ameríku

Að lesa ský er safn ljóða eftir 19 bandarísk skáld, þekkt jafnt sem úr alfaraleið, og er hið elsta fætt árið 1903 en hið yngsta 1984. Efnistök og umfjöllunarefni eru margvísleg og endurspegla ólíkan reynsluheim skáldanna – allt frá múslimskum bakgrunni Naomi Shihab Nye og ádeiluljóðum Amiri Baraka, til hins skoplega hversdags í prósaljóðum Lydiu Davis og náttúrustemminga Mary Oliver.

Magnús Sigurðsson íslenskaði


1 athugasemd

Dansað í Ódessa

DANSAÐ Í ÓDESSA eftir Ilya Kaminsky

Sigurður Pálsson og Sölvi Björn Sigurðsson þýddu

Dansað í Ódessa eftir rússnesk-bandaríska skáldið Ilya Kaminsky var síðasta verkið sem Sigurður Pálsson vann að, en auðnaðist ekki að ljúka þrátt fyrir ómælda elju allt til hinsta dags. Þegar ljóst varð að lítið vantaði upp á til að klára bókina til útgáfu, kom Sölvi Björn Sigurðsson að verkinu, þýddi það sem út af stóð og ritaði formála.


Skrifa athugasemd

Hawkline-skrímslið á íslensku

HAWKLINE-SKRÍMSLIÐ – gotneskur vestri – eftir Richard Brautigan

Þórður Sævar Jónsson íslenskaði

Richard Brautigan (1935-1984) var á meðal þekktustu rithöfunda Bandaríkjanna á sinni tíð. Hann samdi 10 skáldsögur og gaf út 9 ljóðasöfn og eitt smásagnasafn á ferli sínum. Hawkline-skrímslið var sú fimmta sem hann sendi frá sér og er á margan hátt einstök í höfundarverkinu þar sem hún er skopstæling á hinni vinsælu bókmenntagrein vestranum. Tveir atvinnumorðingjar eru ráðnir til að ganga milli bols og höfuðs á skrímsli sem hefur lagt undir sig Hawkline-setrið, en þar búa líka hinar gullfallegu systur, sem nær ógerningur er að þekkja í sundur.


Skrifa athugasemd

Hending með Agnari Má og Lage Lund

Agnar Már Magnússon tónskáld og píanóleikari sendir nú frá sér nýjan geisladisk með með frumsaminni jazztónlist.  Ber sá nafnið Hending og var hljóðritaður á vordögum í hljóðverinu Systems Two í Brooklyn, New York. Um er að ræða samleik Agnars Más og norska gítarleikarans Lage Lund, sem hefur um árabil starfað vestanhafs með mörgum af þekktustu jazztónlistamönnum samtímans. Á Hendingu er 9 lög, öll eftir Agnar Má.

Um hljóðritun, hljóðblöndun og hljómjöfnun á plötunni sá Mike Marciano, en hönnun umslags var í höndum Högna Sigurþórssonar.

Agnar Már hefur allt frá árinu 2001 verið í fremstu röð íslenskra jazztónlistarmanna en það ár sendi hann frá sér diskinn 01. Meðal helstu hljóðritana hans á síðustu árum eru Láð (2007), Kvika (2009) og tvöfaldi hljómdiskurinn Hylur 2012, en fyrir tónsmíðarnar á honum hlaut Agnar Már Íslensku tónlistarverðlaunin. Árið 2016 kom út Svif, sem hlaut mjög góðar viðtökur. Einnig hefur Agnar Már gefið út nótnabókina Þræði með 16 píanóverkum.


1 athugasemd

Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson

Í Tregahandbókinni ægir saman frumsömdum ljóðum og prósum, launfyndnum hugrenningum og lánstextum sem mynda frumlega og yfirgripsmikla heild. Í 250 liðum birtast brot úr endurminningum íslensks alþýðufólks, tilvitnanir, orðaleikir og vísdómskorn, sem saman varða hina villugjörnu leið um tregaslóðir hugans.

Magnús Sigurðsson er margverðlaunað skáld og ljóðaþýðandi sem sækir hér á ný og óræð mið.


Skrifa athugasemd

Þetta er Alla eftir Jon Fosse

Fimmta bókin eftir Jon Fosse á íslensku í þýðingu Hjalta RögnvaldssonarFOSSE_Alla_xw

Signý hugsar til baka og sér sjálfa sig á yngri árum. Hún var ástfangin af Alla, en hann fór á sjóinn og kom ekki til baka. Síðan hefur ekkert breyst, en samt hefur allt breyst. Þetta er Alla lætur lítið yfir sér en er þó svo stór og fjallar um mikla ást og sambúðina við sjóinn sem hefur valdið straumhvörfum í lífi fólks kynslóð eftir kynslóð.

Jon Fosse er einn merkasti samtímahöfundur Norðmanna og hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þríleikinn Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja árið 2015. Þríleikurinn kom út á íslensku 2016, en árið áður kom út sagan Morgunn og kvöld. Bækur Jons Fosse hafa vakið verðskuldaða athygli og leikgerð hans á Eddu, sem var valin sýning ársins í Noregi árið 2017, verður sýnd á Listahátíð í Reykjavík í júnímánuði.