Þorgerður Ása sendir frá sér geisladiskinn Í RAUÐUM LOGA

Í rauðum loga er titillinn á fyrsta geisladisk Þorgerðar Ásu. Á honum eru 11 lög, ýmist frumsamin eða aðfengin, en þar á meðal eru nokkur norræn lög með nýjum íslenskum textum. Smáskífan Þú munt sjá á eftir mér sem kom út í september ásamt samnefndu myndbandi hefur hlotið afar góðar viðtökur. Meðal höfunda sem eiga efni á plötunni eru Aðalsteinn Ásberg, Eivør Pálsdóttir, Mats Paulson, Iðunn Steinsdóttir, Lasse Tennander og Barbara Helsingius.  Ásamt Þorgerði Ásu syngja þau Álfgrímur Aðalsteinsson og Vigdís Hafliðadóttir í þremur lögum. Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir í Safnahúsinu við Hverfisgötu 29. október næstkomandi.

SÖGUSAGNIR eftir Jón Karl Helgason

Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur er titill á nýútkominni bók eftir Jón Karl Helgason. Verkið fjallar um skáldverk sem varpa áhugaverðu ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk sjálfsögur á íslensku en Jón Karl kynnir fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi. Þetta eru þeir Sigurður Nordal með leikritinu Uppstigningu (1945), Elías Mar með skáldsögunni Eftir örstuttan leik (1946) og Gunnar Gunnarsson með skáldsögunni Vikivaka (1948).  Síðasti kafli Sögusagna er helgaður skáldsögunni Turnleikhúsinu (1979) eftir Thor Vilhjálmsson og tengslum hennar við póstmóderníska fagurfræði.

500 DAGAR AF REGNI eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

500 dagar af regni er safn níu smásagna úr íslenskum samtíma þar sem dregin eru fram lykilaugnablik í lífi fólks.  Í gagnrýni um bókina segir Rebekka Sif Stefánsdóttir meðal annars: „Í bókinni eru níu fjölbreyttar smásögur en dauðinn og myrkrið er nærri í flestum þeirra. Flestar þeirra koma til okkar úr hversdagsleikanum en ein sagnanna hefur súrrealískari blæ og skar sig úr hópnum. Það er sagan „Veröld ný og blaut“ þar sem ungur maður vaknar að morgni og sér að borgin hafi horfið í sjó um nóttina. … Að mínu mati er þetta ein sterkasta sagan í smásagnasafninu og áhugavert verður að fylgjast með hvaða stefnu þessi nýi höfundur tekur í sínum næstu verkum.“ Bókin hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2020. Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson er 26 ára Kópavogsbúi og hefur áður birt sögur og greinar í tímaritum. 

MÓR – Agnar Már Magnússon

Agnar Már hefur sent frá sér nýjan geisladisk sem telst vera sjöunda sólóplatan hans. Mór er á þjóðlegum nótum, en aðeins tvö laganna eru frumsamin af Agnari Má, hin eru íslensk þjóðlög í nýjum útsetningum hans. Auk Agnars sem leikur á píanó, leika þeir Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á kontrabassa og Matthías Hemstock á trommur. Þeim til fulltingis er síðan blásarasveit, skipuð Stefáni Þór Bernharðssyni á horn, Frank Hammarin á horn, Asbjørn Ibsen Bruun á horn og Nimrod Ron á túbu.

FAÐMLÖG – Kristjana Stefáns & Svavar Knútur

Kristjana Stefáns og Svavar Knútur hafa haldið tónleika saman um langt árabil og stöðugt bætast ný lög við dagskránna. Faðmlög er önnur dúettaplata þessa skemmtilega tvíeykis, en sú fyrri sem heitir Glæður, kom út árið 2011. Faðmlög var hljóðrituð á tónleikum í febrúar 2020. Þarna er að finna íslensk og erlend lög í bland, bæði frumsamin og fengin úr smiðju annarra tónlistarmanna. Faðmlög kemur bæði út á geisladiski og vínyl. Þess má geta að Glæður eru líka til á vínyl í takmörkuðu upplagi.

Umbra – SÓLHVÖRF – vínylútgáfa

Verðlaunaplatan SÓLHVÖRF með Umbru er komin út á hágæðavínyl í takmörkuðu upplagi.

Sólhvörf er einstök jólaplata sem hlaut Íslensku tónlistarverð-

launin í flokki þjóðlagatónlistar 2019, en þau voru afhent í mars sl.

Hlið A:

1. Hátíð fer að höndum ein 2. Jól 3. Coventry Carol 4. Personent hodie 5. Green Groweth the Holly 6. Með gleðiraust og helgum hljóm

Hlið B:

1. God Rest You, Merry Gentlemen 2. Wexford Carol 3. Immanúel oss í nátt 4. Als I Lay on Yoolis Night 5. Það aldin út er sprungið